Tónlistarhátíðin Englar og menn býður til tónleika í Strandarkirkju á sunnudögum í sumar frá 2. júlí til 30. júlí. Tónleikarnir hefjast allir kl. 14.  Hátíðin er nú haldin í ellefta sinn og verður í ár glæsileg sönghátíð líkt og undanfarin ár þar sem fjölmargir þjóðþekktir listamenn koma fram ásamt nýstirnum í íslenskum söngheimi.

Þema hátíðarinnar er englar og menn, land, náttúra, trú og saga þar sem íslensk þjóðlög og sönglög, ásamt innlendum og erlendum trúarljóðum og klassískum verkum, hljóma á um klukkustundarlöngum tónleikum.

Aðgangseyrir er kr. 3.500.
Miðasala er við innganginn.
Tekið er við greiðslukortum.

Strandarkirkja er þekkt áheitakirkja og þykir þar vera sérstakur kraftur til hjálpar og bænheyrslu. Yfirskrift hátíðarinnar vísar til helgisagnarinnar um fyrstu kirkjuna þar, um ljósengilinn sem birtist sæförum í sjávarháska og þeir hétu á í örvæntingu sinni. Hann vísaði þeim að landi og þeir reistu þar kirkju í þakklætisskyni. 

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona er listrænn stjórnandi og framkvæmdastjóri hátíðarinnar, sem er styrkt af Uppbyggingarsjóði Suðurlands, Tónlistarsjóði og Strandarkirkjunefnd.




 
 


 

Staðsetning

download.png

Styrktaraðilar

Kennimark-A1.jpg
sass.jpg

Sérstakar þakkir

Sérstakar þakkir fær Strandarkirkjunefnd fyrir ómetanlegan stuðning og ánægjulegt samstarf
frá stofnun hátíðarinnar árið 2012.