30. júlí

,,Sem í draumi”
Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran
Arnheiður Eiríksdóttir messósópran
Helga Bryndís Magnúsdóttir píanó / orgel

Lokatónleikar tónlistarhátíðarinnar Englar og menn verða nk. sunnudag í Strandarkirkju og hefjast kl. 14. Fram koma Jóna G. Kolbrúnardóttir sópran, Arnheiður Eiríksdóttir messósópran og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari. Tónleikarnir bera yfirskriftina “Sem í draumi” og verða á ljúfu nótunum. Þar leiða þær Jóna, Arnheiður og Helga Bryndís áheyrendur í draumheima með flæðandi dúettum eftir Mendelssohn og ljúfum sönglögum eftir Mozart, Fauré og Donaudy í bland við íslenskar perlur. 

Miðaverð er kr. 3.500 og miðasala er við innganginn.

Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlennskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs og Tónlistarsjóði.

Um flytjendur:

Arnheiður Eiríksdóttir lauk Burtfararprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og Bachelorsgráðu með hæstu einkunn frá Listaháskólanum í Vín.  Þar stundaði hún einnig meistaranám þar til hún gerðist meðlimur í óperustúdíói Kölnaróperunnar í Þýskalandi 2018-2020. Arnheiður hefur verið fastráðin sem einsöngvari við Þjóðaróperuna í Tékklandi síðan í ágúst 2020 og hefur þar meðal annars farið með titilhlutverkið í Rósariddara Stauss, hlutverk Rosinu í Rakaranum frá Sevilla, Cherubino í Brúðkaupi Fígarós, Dorabellu í Cosí fan tutte, Stephano í Romeo et Juliette eftir Gounod, Kuchtík í Rusölku og Varvöru í Kát'a Kabanová eftir Janácek. 
Fyrir túlkun sína á Rósariddaranum var hún tilnefnd til Gagnrýnendarverðlaunanna í Tékklandi fyrir leik ársins 2022.
Arnheiður þreytti frumraun sína hjá Íslensku Óperunni sem Hans í óperunni “Hans og Gréta” og vakti nýlega athygli fyrir túlkun sína á hlutverk Suzuki í “Madam Butterfly” nú í vor. Hún söng einnig Dorabellu úr Cosí fan tutte við óperuhúsið í Daegu í Suður-Kóreu. 
Arnheiður hefur komið fram sem einsöngvari með Suður Bóhemsku Fílharmóníunni í Budweis, Kammerfílharmóníu Pardubice, Gürzenig hljómsveitinni, EinKlang Fílharmóníunni og sungið Les nuits d’été eftir Berlioz með Slesísku fílarmóníunni. Á næsta starfsári bíða hennar tónleikar með Tékknesku Fílharmóníunni, Fílharmóníu Bohuslav Martinu og Sinfóníuhljómsveit Íslands.
Sérstaka unun hefur Arnheiður af sönglögum og ljóðum og þeim nánu tengslum sem myndast við hlustendur við flutning þeirra og hefur hún haldið ljóðatónleika á Íslandi, í Austurríki, Þýskalandi, Tékklandi og Slóvakíu.
Frá unga aldri söng Arnheiður í kórum Langholtskirkju undir stjórn Jóns Stefánssonar og öðlaðist þar dýrmæta reynslu sem kór- og einsöngvari. 

Jóna G. Kolbrúnardóttir lauk burtfararprófi frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 2014. Sama haust hélt hún í framhaldsnám til Vínarborgar. Þar lauk hún sumarið 2018 Bakkalárgráðu við Tónlistarháskólann. Hún útskrifaðist með meistaragráðu vorið 2021 frá Óperu Akademíunni við Konunglegu Óperuna í Kaupmannahöfn. Jóna hefur verið sýnileg í tónlistarlífinu hérlendis síðustu ár. Hún hefur komið fram sem einsöngvari á þónokkrum tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Síðast á Vínartónleikum sveitarinnar 2020 og á Klassíkin okkar 2021. Jóna fór með frumraun sína hjá Íslensku Óperunni sem Gréta í óperunni “Hans og Gréta” árið 2018. Hún fór með sitt fyrsta hlutverk við Konunglegu Óperuna í Kaupmannahöfn haustið 2020, þar sem hún söng Papagenu í Töfraflautunni eftir Mozart. Jóna er einn af stofnendum Kammeróperunnar sem er nýstofnað tónlistarfélag á Íslandi. Markmið Kammeróperunnar er að skapa vettvang fyrir smærri óperu verkefni en einnig hefur Jóna sungið í kvartett á vegum félagsins sem hefur nú þegar komið mikið fram í tónlistarlífinu á Íslandi. Í október 2022 fór hún með hlutverk Önnu í óperunni “Brothers” eftir Daníel Bjarnason sem flutt var í Eldborg á vegum Íslensku óperunnar. Sama mánuð fór Jóna með hlutverk Despinu í óperunni “Così fan tutte” eftir Mozart í fyrstu óperu uppfærslu Kammeróperunnar í Iðnó.

Helga Bryndís Magnúsdóttir lauk einleikara-og kennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1987 þar sem aðalkennari hennar var Jónas Ingimundarson. Hún stundaði síðan framhaldsnám við Konservatoríið í Vínarborg hjá Leonid Brumberg og Sibeliusarakademíuna í Helsinki, hjá Liisu Pohjola og Tuiju Hakkila. Hún hefur leikið fjölmörg einleiksprógrömm, m.a. í Salnum í Kópavogi, á Listahátíð í Reykjavík og um
allt land. Hún hefur auk þess leikið einleik með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, píanókonserta eftir Ravel, Poulenc, Brahms, Gershwin og Bach. Helga Bryndís lék einleik í beinni
sjónvarpsútsendingu á Norðurlöndunum í spurningaþættinum Kontrapunkti. Hún hefur leikið mikinn fjölda tónleika með fremstu söngvurum og hljóðfæraleikurum landsins og hljóðritað marga geisladiska í samstarfi við aðra. Hún er meðlimur í Caput hópnum og hefur leikið með honum víða erlendis og hér heimavið auk þess að hafa leikið inn á geisladiska með þeim. Hún hefur einnig gert upptökur fyrir sjónvarp
og útvarp, bæði ein og með öðrum. Hún starfar sem píanóleikari við Listaháskóla Íslands og Tónlistarskólana í Kópavogi og Reykjanesbæ.

23. júlí
,,Syngjum selunum nýjan söng”
Gissur Páll Gissurarson tenór
Pamela De Sensi þverflauta
Steingrímur Þórhallsson píanó / orgel

Syngjum selunum nýjan söng er yfirskrift næstu tónleika í Strandarkirkju þar sem fram fram koma tenórsöngvarinn Gissur Páll Gissurarson, Pamela De Sensi flautuleikari og Steingrímur Þórhallsson organisti.
Á tónleikunum verður boðið upp á tónlist eftir meðal annars Donizetti, Rossini, Sigvalda Kaldalóns og Schubert, allt frá operuaríum yfir í íslensk sönglög. Einnig verða frumflutt fjögur ný lög eftir Steingrím við ljóð Guðrúnar Valdimarsdóttur sem lést 102 á síðasta ári. Pamela hafði frumkvæði að verkunum þar sem hún dáðist að þessari hressu konu sem þótti svo vænt um ljóðin sín og bjó ekki svo langt frá Strandakirkj.
Aðgangseyrir er kr 3.500 og miðasala er við innganginn.
Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs og Tónlistarsjóði.

Um flytjendur:
Gissur Páll Gissurarson
hóf söngferil sinn 11 ára gamall í titilhlutverki Oliver Twist eftir Charles Dickens í Þjóðleikhúsinu. Gissur Páll hóf formlegt söngnám árið 1997 við Söngskólann í Reykjavík undir handleiðslu Magnúsar Jónssonar. Árið 2001 hóf Gissur Páll nám við Conservatorio G.B. Martini í Bologna hjá Wilma Vernocchi. Að loknu námi í Bologna lærði Gissur Páll hjá Kristjáni Jóhannssyni.  Gissur Páll steig sín fyrstu skref sem einsöngvari á óperusviðinu árið 2003, og hefur síðan sungið fjölda hlutverka og tónleka. Gissur Páll hefur tekið þátt í söngvarakeppnum í tvígang og unnið til verðlauna í báðum. Hann hlaut 3. verðlaun í alþjóðlegu söngvarakeppninni ,,Flaviano Labò” árið 2005 og 2. verðlaun í alþjóðlegu söngvarakeppninni Brescia árið 2006 en þar fékk hann einnig sérstök verðlaun gagnrýnenda. Gissur Páll hefur komið víða fram, t.d. í Frakklandi, Þýskalandi, Hollandi, Ítalíu, Japan og Bandaríkjunum svo eitthvað sé nefnt. Gissur Páll hlaut Íslenslu tónlistarverðlaunin sem besti karlsöngvarinn í flokki klassískrar- og samtímatónlistar fyrir flutning sinn á hlutverki Rodolfo í óperunni La Bohème e. Puccini í uppsetningu Íslensku óperunnar 2012. Gissur Páll hefur gert fjölmargar hljóðritanir og má þar nefna jóladiskinn ,,Fegursta rósin” með Nýja Kvarttettinum árið 2008, ,,Ideale” með Caput hópnum árið 2010 og ,,Aría” með Sinfóníuhljómsveit Íslands undir stjórn Petri Sakari árið 2014. Á haustmánuðum 2019 kom út hljóðritun af íslenskum sönglögum, “Við nyrstu voga”. 

Pamela De Sensi tók einleikarapróf á flautu frá Conservatorio G. Perosi á Ítalíu 1998,  lauk "Perfection Flutistic"  frá "Accademia di Musica Fiesole" í Florens árið 2000 og útskrifaðist frá "Conservatorio Superiore di S. Cecilia" í Róm árið 2002 með meistaragráðu með hæstu einkunn í kammertónlist. Einnig hefur hún sótt tíma hjá heimskunnum flautuleikurum s.s. C. Klemm, M.Ziegler, F. Reengli, T. Wye, M. Larrieu og J. Galway. Pamela hefur komið fram á tónleikum víðs vegar bæði sem einleikari sem og í kammertónlist og má þar nefna Frakklandi, Spáni, Englandi, Kasakstan, Mexíkó, Íslandi, Færeyjum, Finnlandi, í Bandaríkjunum og víðsvegar á Ítalíu, ásamt því að koma reglulega fram hér á Íslandi þar sem hún hefur búið frá árinu 2003., m.a. á tónlistarhátíðunum Myrkum músíkdögum, Tibra í Salnum, Norrænum músíkdögum, Sumartónleikum í Skálholtskirkju, Menningarnótt, Tectonics, 15:15 tónleikaröðinni og Listahátið. Árið 2009 var henni boðið að halda tónleika á alþjóðlegri ráðstefnu The National Flute Association í New York og International Flute Festival Flautissimo í Róm árið 2010,2012, 2015 International Low Flute Festival í Washington 2018 það sem hún flutti íslenska tónlist við góðan orðstír. Pamela hefur spilað á nýja plötu Bjarkar UTOPIA.

Steingrímur Þórhallsson ólst upp á Húsavík þar sem hann hlaut sína fyrstu tónlistarmenntun við Tónlistaskólann á Húsavík. Hann fluttist síðan til Reykjavíkur og lauk píanókennaraprófi árið 1998 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík, undir leiðsögn Önnu Þorgrímsdóttur píanókennara og kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar 1998 með Martein H. Friðriksson dómorganista sem orgelkennara. Þá um haustið lá leiðin til Rómar í Kirkjutónlistarskóla Páfagarðs, Pontifictio Istituto di Musica Sacra. Þaðan tók hann lokapróf, Magistero di organo, sumarið 2001 undir leiðsögn Giancarlo Parodi.  Síðustu ár hefur Steingrímur fært sig meira yfir í tónsmíðar og útskrifaðist hann með B.A. próf í tónsmíðum frá Listaháskóla Íslands nú í júní síðastliðnum. Hann hefur samið fjölda kórverka og nú síðast Magnificat fyrir hljómsveik, kór, barnakór og einsöngvara. Einnig hefur Steingrímur unnið lagakeppnir í Bandaríkjunum undir heitinu Stein Thor. Frá haustinu 2002 hefur Steingrímur starfað sem organisti og kórstjóri við Neskirkju ásamt því sem hann hefur starfað með nokkrum tónlistarhópum á Íslandi. Sem orgelleikari hefur Steingrímur hefur komið fram í mörgum af helstu kirkjum á Íslandi bæði sem einleikari og meðleikari á tugum tónleika. Hann hefur leikið á nokkrum hljóðritunum hjá Ríkisútvarpinu, m.a. tvo orgelkonserta eftir Händel með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hann hefur komið fram á tónleikum erlendis, m.a. víða á Ítalíu, Finnlandi, Eistlandi, Frakklandi og Þýskalandi.


16. júlí 
,,Lestir og brestir"
Guðrún Brjánsdóttir sópran
Sólveig Sigurðardóttir sópran
Einar Bjartur Egilsson píanó / orgel

,,Lestir og brestir" er yfirskrift næstu tónleika í tónleikaröðinni Englar og menn í Strandarkirkju, sunnudaginn 16. júlí kl. 14. Þar koma fram sópransöngkonurnar Guðrún Brjánsdóttir og Sólveig Sigurðardóttir ásamt Einari Bjarti Egilssyni píanóleikara. Þau flytja sönglög, aríur og dúetta sem fjalla á einn eða annan hátt um mannlega lesti og bresti. Á dagskránni eru m.a. verk eftir Sigvalda Kaldalóns, Pál Ísólfsson, Atla Heimi Sveinsson, Schubert, Grieg, Verdi og Mozart.

Miðaverð er kr. 3.500 og miðasala er við innganginn.

Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlennskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs og Tónlistarsjóði.

Um flytjendur:

Guðrún Brjánsdóttir sópran lærði á píanó hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni og síðar hjá Svönu Víkingsdóttur í Tónlistarskólanum í Reykjavík þaðan sem hún lauk framhaldsprófi á píanó árið 2015. Frá sama skóla lauk hún burtfararprófi í einsöng þar sem kennarar hennar voru Sigrún Hjálmtýsdóttir og Þórunn Guðmundsdóttir. Guðrún stundaði nám í söng við Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn þar sem kennari hennar var Hanna Hjort og lauk þaðan B.Mus.-prófi með hæstu einkunn árið 2021.
Síðastliðinn vetur hefur Guðrún stundað framhaldsnám í söng og málvísindum við Cornell-háskóla í Bandaríkjunum, hjá söngkennaranum Tamöru Acosta. Í febrúar 2023 deildi Guðrún sviði með bandarísku sópransöngkonunni Dawn Upshaw, þar sem þær skiptu með sér einleiksköflum fyrir sópran og hljómsveit í verkinu Winter Morning Walks eftir Mariu Schneider sem flutt var í Cornell-háskóla. Haustið 2022 keppti Guðrún í svæðisúrslitum bandarísku NATS-söngkeppninnar og hreppti þar 2. verðlaun, og í mars 2022 hlaut hún 1. verðlaun í íslensku söngkeppninni Vox Domini fyrir flutning á lagi eftir tónskáld keppninnar og 2. verðlaun í opnum flokki. Guðrún hefur farið með hlutverk í ýmsum óperuuppfærslum, svo sem í nokkrum óperum Þórunnar Guðmundsdóttur í Tónlistarskólanum í Reykjavík og hlutverk Evridísar í La Morte D'Orfeo eftir Stefano Lando í Det Kongelige Danske Musikkonservatorium í Kaupmannahöfn.

Sólveig Sigurðardóttir stundaði nám í píanóleik frá unga aldri. Hún nam síðan óbóleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lék á óbó m.a. með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Hún hóf söngnám við Tónskóla Þjóðkirkjunnar hjá Jóni Þorsteinssyni árið 2006 og lauk þaðan prófi í kórstjórn 2009. Hún lauk B.Mus. í klassískum söng frá Het Utrechts Conservatorium í Hollandi 2013 þar sem kennarar hennar voru Jón Þorsteinsson og Charlotte Margiono, og stundaði einnig söngnám við Tónlistarskólann í Reykjavík hjá Hlín Pétursdóttur og Þórunni Guðmundsdóttur. Vorið 2018 lauk hún meistaragráðu í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi (NAIP) frá Listaháskóla Íslands, með söng sem aðalfag. Hún hefur einnig sótt fjölda námskeiða í söng, kórstjórn, leiklist og dansi.

Í janúar 2018 hlaut hún 2. verðlaun og áhorfendaverðlaunin í söngkeppninni Vox Domini. Hún var meðal fjögurra söngvara sem valdir voru til að taka þátt í Nordic masterclass hjá Gittu-Mariu Sjöberg og Jorma Panula í Sønderborg í Danmörku í júní 2019. Sólveig hélt tónleika í sumartónleikaröð Listasafns Sigurjóns Ólafssonar í ágúst 2019 og söng einsöngshlutverk í Carmina burana með Sinfóníuhljómsveit unga fólksins í nóvember 2019.

Sólveig er meðlimur sviðslistahópsins Óðs og söng hlutverk Adinu í fyrstu uppfærslu þeirra, Ástardrykknum, í Þjóðleikhúskjallaranum á leikárinu 2021-2022 og syngur hlutverk Norinu í uppfærslu hópsins á Don Pasquale sem sýnd er í Þjóðleikhúskjallaranum um þessar mundir.

Einar Bjartur Egilsson hóf píanónám 7 ára í Tónlistarskólanum í Reykjahlíð við Mývatn. Síðar fluttist hann til Reykjavíkur og stundaði nám í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hjá Guðríði St.
Sigurðardóttir og Önnu Málfríði Sigurðardóttur. Haustið 2010 hóf hann nám í Listaháskóla Íslands undir handleiðslu Peters Máté og útskrifaðist þaðan vorið 2013. Í janúar það ár lék hann einleik í
píanókonsert F. Poulencs með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Frá 2013 - 2015 stundaði hann meistaranám í Konservatoríinu í Maastricht, Hollandi hjá dr. Katiu Veekmans. Í desember 2014 hlaut hann styrk úr Minningarsjóði um Birgi Einarsson. Einar hefur samið
tónlist fyrir nokkrar stuttmyndir t. d. þýsku myndina Windspiele og síðla árs 2015 gaf hann út sína fyrstu hljómplötu með eigin tónsmíðum sem nefnist Heimkoma. Hann hefur spilað á tónlistarhátíðum í Hollandi og á Íslandi og starfað með kórum bæði þar og hér heima.
Núverið starfar Einar sem meðleikari við Tónskóla Sigursveins, Söngskólann í Reykjavík og Söngskóla Sigurðar Demetz. Einar hefur haldið tónleika reglulega með ýmsum tónlistarmönnum ásamt því að spila einleik annað slagið. Undanfarin ár hefur hann gefið út tvær hljómplötur með píanóverkum eftir svissneska tónskáldið Frank Baumann og nú síðast breiðskífuna Kyrrð með eigin verkum.


9. júlí
,,Á meðan lífsins stundir tifa"
Kristjana Arngrímsdóttir söngur
Ösp Eldjárn söngur
Daníel Þorsteinsson píanó / orgel


,,Á meðan lífsins stundir tifa" er yfirskrift næstu tónleika í tónleikaröðinni Englar og menn í Strandarkirkju, sunnudaginn 9. júlí kl. 14. Þar koma fram söngkonurnar Kristjana Arngrímsdóttir og Ösp Eldjárn ásamt Daníel Þorsteinssyni píanóleikara.

Samstarf mæðgnanna Kristjönu Arngrímsdóttur og Aspar Eldjárn Kristjánsdóttur hófst fyrir alvöru árið 2005 þegar Kristjana gaf út plötuna Í húminu. Síðan þá hafa þær reglulega komið fram saman og er samhljómurinn þannig að erfitt að greina raddirnar í sundur. Þær eru báðar gefnar fyrir hið þjóðlega og tilfinningaríka og samanstendur dagskráin af sálmum, þjóðlögum og frumsömdum lögum. Píanóleikarinn og organistinn Daníel Þorsteinsson, sem einnig kemur fram á tónleikunum, hefur unnið náið með Kristjönu frá því hún hóf sóló ferilinn og hefur m.a ljáð þremur plötum hennar sinn einstaka hljóm.

Miðaverð er kr. 3.500 og miðasala er við innganginn.
Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlennskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs og Tónlistarsjóði.

Um flytjendur:

Söngkonan Kristjana Arngrímsdóttir hóf söngferil sinn í Tjarnarkvartettinum ásamt með Kristjáni Eldjárn Hjartarsyni, eiginmanni sínum, Hjörleifi Hjartarsyni og Rósu Kristínu Baldursdóttur. Eftir að kvartettinn var leystur upp hóf Kristjana sólóferil sinn. Hún hefur fjölbreyttan tónlistarstíl, allt fá þjóðlögum og vísnalögum, sálmum, til sjóðandi heita tangóa og dægurlaga. Hún hefur haldið fjölmarga tónleika hér á landi og erlendis og gefið út fjóra sólóplötur.
Árið 2000 gaf Kristjana út sína fyrstu hljómplötu, Þvílík er ástin og hefur hann notið mikillar hylli fyrir sönggleði og vandaðan flutning. Á þeim diski fékk hún til liðs við sig þá Daníel Þorsteinsson, píanóleikara, Jón Rafnsson bassaleikara og Kristján Eldjárn Þórarinsson, gítarleikara. Árið 2005 kom diskurinn Í húminu út sem er undir sterkum dönskum áhrifum en Kristjana bjó í Danmörku í fimm ár. Þar leitar hún fanga í dönskum söngvasjóði, syngur lög eftir Carl Nielsen eitt þekktasta tónskáld Dana og Bjarne Haar. Vísur og sálmar eftir ýmis höfuðskál Dana, allt frá Grundtvig til Halfdan Rasmussen í nýrri þýðingu Böðvars Guðmundssonar og Kristjáns E. Hjartarsonar. Einnig er að finna íslenskar þjóðlaga og söngperlur. Með henni á þeim disk spila þeir Jón Rafnsson, bassa, Örn Eldjárn, gítar, Tatu Kantomaa, harmonikka, Hjörleifur Valsson, fiðla og Örnólfur Kristjánsson selló. Á þriðju plötu Kristjönu, Tangó fyrir lífið, sem kom út árið 2011, kveður við nýjan tón, seiðandi tangóar frá Argentínu ásamt íslenskum og frumsömdum lögum. Hér steig Kristjana fram sem lagahöfundur og tvö laga hennar má finna á plötunni. Árið 2014 kom jólaplatan, Stjarnanna fjöld, út. Titillag og texti plötunnar er eftir Kristjönu. Útsetningar Örn Eldjárn og gítarleikur, Ösp Eldjárn, söngur, Lára Sóley Jóhannsdóttir, fiðla, Ella Vala Ármannsdóttir, horn, Petrea Óskarsdóttir, þverflauta Ásdís Arnardóttir, selló, Daníel Þorsteinsson, orgel, harmonikka, Páll Barna Szabo, fagott, Jón Rafnsson, kontrabassi, Frank Aarnink, ásláttur, Magnús Tryggvason Eliassen, trommur. Kristjana vinnur nú að sinni fimmtu útgáfu sem inniheldur hennar eigin tónsmíðar við eigin texta og annara og er hún væntanleg á þessu ári.

Ösp Eldjárn hóf snemma að syngja og var farin að koma fram með foreldrum sínum snemma á unglingsárum. Hún lagði stund á klassískan söng í Söngskóla Sigurðar Demetz og jazz söng við Tónlistarskóla FÍH. Árið 2009 stofnaði hún ásamt vinum sínum alþýðu og suðurríkja hljómsveitina Brother Grass sem átti góðu fylgi að fagna. Árið 2011 flutti Ösp til London þar sem hún stundaði tónlistarnám við London Centre of Contemporary Music og Institute of Contemporary Music Perfomance. Um það leyti fór hún að semja sín eigin lög og texta. Hún gaf út sína fyrstu sóló plötu, Tales from a poplar tree, árið 2017 og hlaut hún tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna.
Ösp hefur haldið fjölda tónleika á Íslandi, bæði ein og með hljómsveitum sínum og komið fram víða í Bretlandi. Má þar nefna Cambridge Folk Festival, Festival No6 í Wales og Unamplifire Festival í London. Í upphafi ársins 2020 stofnaði hún ásamt systkinum sínum hljómsveitina Blood Harmony. Í júlí 2023 munu þau leggja land undir fót og halda í tónleikaferðalag til Bretlands þar sem þau munu meðal annars koma fram á nokkrum af virtustu tónlistarhátíðum þar í landi, svo sem Belladrum Festival, HebCelt Festival, Cambridge Folk Festival og Doune the rabbit hole.

Daníel Þorsteinsson er fæddur í Neskaupstað, hóf hann tónlistarnám sitt þar og nam síðar við Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar og Tónlistarskólann í Reykjavík. Feril sinn sem píanóleikari hóf hann samhliða námi við Sweelinck tónlistarháskólann í Amsterdam þaðan
sem hann lauk DM prófi í píanóleik og kennslufræðum árið 1993. Að loknu námi hefur Daníel starfað við tónlistarflutning af ýmsu tagi með fjölmörgum listamönnum og hópum, leikið inn á fjölda hljómdiska, stjórnað kórum og hljómsveitum, auk þess að sinna kennslu við Tónlistarskólann á Akureyri. Með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hefur Daníel leikið reglulega auk þess að útsetja fyrir sveitina og stjórna SinfoniaNord í upptökum á kvikmyndatónlist. Daníel hefur stundað tónsmíðar um árabil, haustið 2019 hóf hann MA nám í tónsmíðum við
Listaháskóla Íslands þaðan sem hann útskrifaðist í desember 2021. Daníel nýtur nú listamannalauna frá íslenska ríkinu en hann verður staðartónskáld á tónlistarhátíðinni WindWorks í Norðri 23 sem fram fer á Norðurlandi í ágúst næstkomandi. Daníel býr í Eyjafjarðarsveit.

 2. júlí 
 ,,Himininn er nálægt þér”
Björg Þórhallsdóttir sópran
Eyjólfur Eyjólfsson tenór
Elísabet Waage harpa
Hilmar Örn Agnarsson orgel


Hin árlega tónlistarhátíð, Englar og menn í Strandarkirkju hefst sunnudaginn 2. júlí nk. og stendur yfir í júlímánuði með tónleikum á sunnudögum kl. 14. Á fyrstu tónleikunum koma fram Björg Þórhallsdóttir sópran, Eyjólfur Eyjólfsson tenór, Elísabet Waage hörpuleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Yfirskrift tónleikanna er ,,Himininn er nálægt þér" en á efnisskránni eru m.a. þjóðlög eftir Benjamin Britten ásamt innlendum og erlendum sönglögum  eftir m.a. Gylfa Þ. Gíslason, Tryggva M. Baldvinsson, Þórunni Guðmundsdóttur, Inga T. Lárusson o.fl. ásamt þekktum perlum úr heimi tónbókmenntanna. Á tónleikunum verður einnig frumflutt lag hátíðarinnar 2023 eftir Georg Kára Hilmarsson tónskáld við ljóð Kristjáns Vals Ingólfssonar f.v. vígslubiskup.

Listrænn stjórnandi hátíðarinnar er sem fyrr Björg Þórhallsdóttir og aðgangseyrir er kr. 3.500.

Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlennskra sveitarfélaga, Tónlistarsjóði og Tónlistarsjóði kirkjunnar og STEFs .