Back to All Events

„Í nafni þínu" - Tónleikar 4. ágúst 2019

Valgerður Guðnadóttir söngur / mandólín
Helga Laufey Finnbogadóttir harmóníum / píanó
Guðjón Þorláksson kontrabassi

Á efnisskránni eru íslensk og evrópsk þjóðlög ásamt tónlist eftir
Magnús Eiríksson, Hilmar Oddsson, Helgu Laufeyju Finnbogadóttur, Rodgers og Hammerstein, Cole Porter, Kurt Weill o.fl.

Húsið opnar kl. 13.15 og tónleikar hefjast kl. 14:00.

Aðgangseyrir: 2900kr. Miðar eingöngu seldir við dyrnar.

Valgerður Guðnadóttir nam við Söngskólann í Reykjavík og við framhaldsdeild Guildhall School of Music and Drama í London. Hún hóf söngferil sinn með hlutverki Maríu í West Side Story í Þjóðleikhúsinu 18 ára gömul. Síðan þá hefur hún sungið og leikið á ólíkum vettvangi, t.d. hjá Þjóðleikhúsinu, Borgarleikhúsinu og Íslensku Óperunni. Valgerður lék hlutverk Maríu í Söngvaseiði í Borgarleikhúsinu og hlaut fyrir það Grímuna, Íslensku leiklistarverðlaunin, sem Söngvari ársins. Valgerður hefur farið með mörg hlutverk á ferlinum, allt frá söngleikjum til óperu eins og t.d. Fantine í Vesalingunum, Lindu í Gauragangi, Janet í Rocky Horror, Papagenu í Töfraflautunni, Mercedes í Carmen, Barbarinu í Brúðkaupi Fígarós og Poppeu í Krýningu Poppeu. Haustið 2015 fór hún með hlutverk Bertu í Rakaranum frá Sevilla hjá Íslensku Óperunni en fyrir það hlutverk hlaut hún tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem söngkona ársins.

Valgerður hefur sungið inn á fjölmarga hljómplötur og árið 2010 kom út sólóplata hennar, Draumskógur. Valgerður hefur haldið fjölda tónleika og komið víða fram sem einsöngvari hér heima og erlendis m.a. á opnunarhátíð Hörpu 2011 og margsinnis sungið með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Valgerður söng hlutverk Völvunnar í Völuspá, nýju tónverki eftir Þorvald Bjarna Þorvaldsson fyrir sinfóníuhljómsveit og kór sem flutt var í Færeyjum 2018 og fór í sama mánuði með hlutverk Christine Daaé í The Phantom of the Opera í Eldborgarsal Hörpu en fyrir það hlutverk hlaut hún tilnefningu til Grímunnar 2018. Valgerður hlaut jafnframt tilnefningu til Íslensku tónlistarverðlaunanna í janúar s.l. sem söngkona ársins í sígildri-og samtímatónlist.

Helga Laufey Finnbogadóttir lauk burtfararprófi á píanó frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og stundaði síðan framhaldsnám við Sweelinck tónlistarháskólann í Amsterdam, fyrst í klassískri tónlist en söðlaði yfir í jazzdeild skólans og útskrifaðist þaðan 1994. Hún hefur starfað við marga tónlistarskóla sem undirleikari, m.a. við Söngskólann í Reykjavík, söngdeild Tónlistarskóla FÍH, Domus Vox, Tónskóla Sigursveins og Söngleikjadeild Söngskóla Sigurðar Demetz auk þess að kenna á píanó við Tónlistarskólann á Seltjarnarnesi. Hún hefur tekið þátt í tónleikahaldi innanlands og utan meðal annars í Norræna húsinu, á Gljúfrasteini og Múlanum.

Guðjón Steinar Þorláksson lauk burtfaraprófi á kontrabassa frá Tónlistarskóla Kópavogs og kennaraprófi frá Kennaraháskólanum. Hann hefur kennt við Tónskólann Do Re Mí frá árinu 1995 og Tónlistarskólann á Seltjarnarnesi frá árinu 1996 þar sem hann er aðstoðarskólastjóri. Guðjón hefur spilað jöfnum höndum klassíska tónlist, dægurtónlist og jazztónlist með hinum ýmsum tónlistarmönnum hér á landi. Hann hefur meðal annars spilað á Múlanum, Stofutónleikum á Gljúfrasteini og í Norræna húsinu.