Back to All Events

„Himinborna dís" - Tónleikar 30. júní

,,Himinborna dís” er yfirskrift opnunartónleika hátíðarinnar 2019 en flytjendu eru Björg Þórhallsdóttir sópran,  Elísabet Waage hörpuleikari,  Hjörleifur Valsson fiðluleikari og Hilmar Örn Agnarsson organisti. Megnið af enfisskránni verður helguð minningu Atla Heimis Sveinssonar en einnig verða flutt sönglög eftir Sigvalda Kaldalóns, F. Schubert o.fl.

Húsið opnar kl. 13.15 og tónleikar hefjast kl. 14:00.

Aðgangseyrir: 2900 kr. Miðar eingöngu seldir við dyrnar.

Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona lauk framhaldsnámi í óperusöng við óperu- og einsöngvaradeild Konunglega tónlistarháskólans í Manchester á Englandi vorið 1999 og stundaði síðan frekara nám í Lundúnum hjá hinum virta söngkennara, Dr. Iris Dell’Acqua með hléum og meðfram söngstörfum til vorsins 2006.  
Björg hefur haldið einsöngstónleika og komið fram sem einsöngvari við fjölda tækifæra hér á landi sem og víða í Evrópu. Hún hefur sent frá sér þrjár hljómplötur, Það ert þú! Eyjafjörður – ljóð og lag árið 2000, Himnarnir opnast- jólaperlur árið 2006, Gullperlur árið 2007 og í júlí nk. sendir hún frá sér nýja hljómplötu með íslenskum sönglögum ásamt Elísabetu Waage og Hilmari Erni Agnarssyni.  Björg hefur einnig hljóðritað bæði fyrir útvarp og sjónvarp á Íslandi. 

Flutningur kirkjulegrar tónlistar hefur skipað stóran sess á söngferli Bjargar en sérstaka rækt hefur hún lagt við flutning og kynningu íslenskra sönglaga og sönglagahefðar, jafnt hér heima og erlendis. Hún hefur starfað náið með Elísabetu Waage hörpuleikara sl. 10 ár og hafa þær haldið fjölmarga tónleika víða um land og erlendis á  tónlistarhátíðum og í sumartónleikaröðum.  Frá árinu 2011 hefur Hilmar Örn Agnarsson organisti komið fram með þeim, en Björg og Hilmar hafa einnig haldið tónleika víða hér á landi og erlendis, m.a. í Noregi, Þýskalandi, Englandi, Slóvakíu, Spáni og Frakklandi. Árið 2014 komu þau m.a. fram á tónleikum á Salisbury International Arts Festival á Englandi og árið 2016 komu þau fram á tónleikum í Klettakirkjunni í Helsinki. 

Björg hefur einnig frumflutt verk með Kammerkór Suðurlands, m.a. verk eftir breska tónskáldið Jack White í Southwark Cathedral í Lundúnum árið 2013 og síðar á Listahátíð í Reykjavík 2014, á Salisbury Interntational Arts Festival á Englandi og Umeå International Choir Festival í Svíþjóð, þar sem flutningnum var útvarpað beint hjá sænska ríkisútvarpinu. 

Þá er Björg stofnandi og  listrænn stjórnandi árlegu Tónlistarhátíðarinnar í Strandarkirkju í Selvogi - Englar og menn. Björg var bæjarlistamaður Akureyrar árið 2007 og þáði Starfslaun listamanna 2013 og 2014. 
Elísabet Waage stundaði nám í píanó- og hörpuleik við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk píanókennaraprófi þar 1982.  Þá nam hún hörpuleik við Konunglega Tónlistarháskólann í den Haag í Hollandi.  Kennari hennar var hinn virti hörpuleikari og kennari, Edward Witsenburg.  Árið 1987 lauk hún náminu með einleikara-og kennaraprófi. 

Árið 1987 voru Elísabet og Peter Verduyn Lunel flautuleikara valin til þáttöku í verkefni sem Yehudi Menuhin setti á fót.  Þau léku í nokkur ár á vegum Young Musician Stofnunarinnar í Hollandi.   

Hún hefur spilað í kammermúsíkhópum  s.s. Kammersveit Reykjavíkur, Caput-hópnum og verið gestur Cikada í Noregi.  Eins hefur hún leikið í ýmsum sinfóníuhljómsveitum, m.a. Sinfóníuhljómsveit Íslands og Noord-Nederlands Orkest í Hollandi.  Hún hefur komið fram sem einleikari með Kammersveit Rvk., Íslensku hljómsveitinni, Autunno í Hollandi, Avanti í Finnlandi og Århus Sinfonietta í Danmörku.  Elísabet hefur gert upptökur fyrir útvarp og sjónvarp og leikið inn á geisladiska.  Þeirra á meðal eru diskar með Peter Verduyn Lunel, flautuleikara (Arsis 1994), Gunnari Kvaran, sellóleikara (Sonet 2004) og Laufeyju Sigurðardóttur, fiðluleikara; SERENA(2008).

Síðan haustið 2002 hefur hún verið hörpukennari við Tónlistarskóla Kópavogs. 

Tvívegis hefur Elísabet þegið boð um að spila á Alþjóðlegu hörpuþingi (World Harp Congress), í Kaupmannhöfn árið 1993 og í Amsterdam 2008.

Hjörleifur Valsson (f.1970) lauk einleikaraprófi frá Tónlistarháskólanum í Ósló árið 1993,þar sem aðalkennari hans var Eivind Aadland, en hlaut þá styrk frá tékkneska ríkinu til náms við Prag-konservatóríið. Þar nam hann fiðluleik og kammertónlist í þrjú ár,auk þess að leika með ýmsum kammersveitum og hljómsveitum þar í borg. Hjörleifur lauk Dipl.Mus.gráðu frá Folkwang Hochschule í Essen sumarið 2000. Á námsárum sínum í Mið-Evrópu sótti hann námskeið hjá Grigorij Zhislin, Truls Mörk, Pierre Amoyal, Sergey Stadler, Pavel Gililov o.fl. Hann hefur komið fram á fjölda tónleika víða um
Evrópu, starfað með tónlistarmönnum á borð við Mstislav Rostropovitsj, Shlomo Mintz, Gilles Apap
o.fl., samið, útsett og leikið tónlist fyrir leikhús og margoft tekið þátt í upptökum fyrir útvarp,
sjónvarp, kvikmyndir og hljómplötuútgáfur. Hjörleifur hefur verið mjög virkur í íslensku tónlistarlífi um margra ára skeið en er nú búsettur í Noregi.

Hilmar Örn Agnarsson hóf tónlistarnám við Tónskóla þjóðkirkjunnar ungur að árum. Hann lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík árið 1983, þar sem aðalkennari hans var Jónas Ingimundarson. Að útskrift lokinni starfaði hann sem organisti og kórstjóri í Þorlákshöfn og Strandarkirkju árin 1983 til 1985. Í kjölfarið hélt hann til Þýskalands til frekara náms í orgelleik og kórstjórn, sem hann stundaði við Hochschule für Musik und darstellende Kunst í Hamborg frá 1985 til 1991.

Árið 1991 var Hilmar Örn ráðinn organisti við Skálholtsdómkirkju og stjórnaði þar öflugu tónlistarlífi um árabil; tók því næst við stöðu dómorganista í Kristskirkju, Landakoti í Reykjavík og starfar nú sem organisti og kórstjóri við Grafarvogskirkju, auk þess að stýra kórunum Vox populi, Söngfjelaginu og Kammerkór Suðurlands. Þá hefur Hilmar Örn verið í afleysingastöðu organista við Hafnarfjarðarkirkju frá síðustu áramótum og stjórnað Barbörukórnum. 


Hjörleifur Valsson.JPG