,,Sumarið þegar setur blítt”

17. júlí kl. 14 2022

Margrét Hrafnsdóttir sópran
Stefán Ómar Jakobbon básúna
Mikael Máni Ásmundsson gítar og harmónikka

Tónlistarhátíðin Englar og menn stendur nú sem hæst í Strandarkirkju.

Á næstu tónleikum hátíðarinnar sunnudaginn 17. júlí nk. kl 14 kemur fram sópransöngkonan Margrét Hrafnsdóttir
ásamt Stefáni Ómari Jakobssyni sem leikur á básúnu og Mikael Mána Ásmundssyni sem leikur á gítar og harmónikku. Yfirskrift tónleikanna er ,,Sumarið þegar setur blítt" en efnisskránni eru íslensk þjóðlög og sálmar, lög eftir m.a. Ingibjörgu Azima og Jón Múla Árnason ásamt verkum eftir Kurt Weill og Ray Henderson.

Aðgangseyrir er kr. 3.500. Miðasala er við innganginn.
Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Tónlistarsjóði.

UM FLYTJENDUR:

Margrét Hrafnsdóttir, sópransöngkona lauk árið 1998 8. stigi hjá Sieglinde Kahmann frá Tónlistarskóla Reykjavíkur, en einnig 8. stigi á píanó hjá Selmu Guðmundsdóttur. Margrét lauk söngkennara- og einsöngvaradiplómi frá tónlistarháskólanum í Stuttgart undir handleiðslu Michiko Takanashi, Robert Hiller og Franzisco Araiza. Einnig lauk hún prófi frá ljóðadeild tónlistarháskólans hjá Cornelis Witthoefft.  Margrét hlaut styrk hjá Wagnerfélaginu í Stuttgart til að fara til Bayereuth og í framhaldi af því hélt hún einnig tónleika hjá Wagnerfélaginu. Hún hefur sótt fjölda námskeiða þar á meðal hjá Anne Sofie von Otter á uppvaxtarheimili Birgit Nilsson í Svíþjóð.

Margrét fór með hlutverk Freyju í Þrymskviðu eftir Jón Ágeirsson sem flutt var í Norðurljósum undir stjórn Gunnsteins Ólafssonar á haustdögum 2018. Hún átti að fara með hlutverk Ortlinde í uppfærslu Íslensku óperunnar og Sinfoníuhljómsveit Íslands á „Die Walküre“ eftir Richard Wagner á Listahátíð í febrúar 2022, sem því miður var aflýst.

Hún hefur haldið einsöngstónleika í Þýskalandi, Íslandi, Sviss, Danmörku og Svíþjóð. Hún hefur hlotið styrki úr tónlistarsjóði, 2020 hlaut hún þriggja mánaða listamannalaun og sex mánuði fyrir 2021. Margrét starfar sjálfstætt sem söngkona og söngkennari.

Árið 2007 gaf hún út ásamt Ólöfu Sigursveinsdóttur, sellóleikara geisladiskinn „Hjartahljóð“, íslensk þjóðlög. Einnig fengu þær styrk frá Hlaðvarpanum til ad láta semja fyrir sig verk, „Heimtur“, sem frumflutt var í Berlín 2011 eftir Ingibjörgu Azima. Árið 2015 kom út diskurinn „Vorljóð á Ýli“ með þeim lögum.

Gítarleikarinn Mikael Máni Ásmundsson lauk námi við einn virtasta tónlistarskóla í Evrópu Conservatorium van Amsterdam í júní 2018. Þar útskrifaðist hann með hæstu einkunn af gítarleikurum í sínum árgangi. Mikael lærði undir handleiðslu jazzgítarleikarans Jesse van Ruller sem er með þekktari og virtari jazzgítarleikurum Evrópu. Hann stundaði nám við FÍH þaðan sem hann útskrifaðist árið 2014, aðeins 18 ára gamall, undir leiðsögn Hilmars Jenssonar og Sigurðar Flosasonar. Hann er nú í fullu starfi sem tónlistarmaður og þiggur listamannalaun sem flytjandi og tónskáld í 6 mánuði. Á árinu 2021 gaf hann út plötuna Nostalgia Machine í samvinnu við einn virtasta pródúsent jazz heimsins Matt Pierson sem hefur unnið að plötum með Pat Metheny, Brad Mehldau, Joshua Redman og fleirum. Hann hélt útgáfutónleika í ágúst í Kaldalóni með 10 manna hljómsveit. Platan hefur fengið frábærar viðtökur og hefur meðal annars verið spiluð á BBC 6 og fengið umfjöllun í virtasta jazztímariti Bretlands Jazzwise. Lög Mikaels hafa einnig verið spiluð m.a. í þáttum BBC Radio 3 "Late Junction" og BBC Hereford & Worcester, Franska ríkisútvarpinu og tíu öðrum útvarpstöðvum í Bretlandi. Einnig hafa lögum hans verið streymt oftar en 1,000,000 sinnum á Spotify. Árið 2018 var frumraun Mikaels á sviði tónlistarútgáfu, platan "Beint heim" með dúettnum "Marína & Mikael", tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna sem plata ársins í Jazz & blús. Í júní 2019 gaf hann út plötuna "Bobby" með tríói sínu en sú plata hlaut lof gagnrýnenda og var Mikael tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2020 sem lagahöfundur ársins fyrir tónsmíðar sínar á þeirri plötu. Tríóið sem innihélt Skúla Sverrisson hélt útgáfutónleika í Kaldalóni í Hörpu í júní 2019 og komu þeir fram á Jazzhátíð Reykjavíkur í september 2019. Mikael gaf út tvær plötur á árinu 2020, plötunar Tendra og Sólstöður. Á íslensku tónlistarverðlaunum 2021 fékk hann tilnefningu í jazz/blús flokki sem tónhöfundar ársins í og fyrir lag ársins.

Stefán Ómar Jakobsson tónlistarmaður og básúnuleikari hefur starfað opinberlega við tónlist frá 1984. Hann stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og lauk þaðan kennaranámi 1985 eftir það stundaði hann nám við Hochschule fur muzik und darstellende kunst í Graz í Austurríki og síðar við Berklee College of Music í Boston. Hann hefur leikið með Sinfóinlíuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands í ýmsum verkefnum og leikið í mörgum söngleikja- og óperuuppfærslum. Hann stjórnaði Lúðrasveit Hafnarfjarðar frá 1988-2004 og hefur verið fastur básúnuleikari í Stórsveit Reykjavíkur sl. tuttugu ár.

Stefán stofnaði hljómsveit sína Stebbi Ó swingsextett 2014 sem á undanförnum árum hefur leikið víða á höfuborgarsvæðinu sérstaklega fyrir Lindy-hop dansara. Hann hefur einnig stofnað smærri samspil eins og Jazztríó Stebba Ó með þeim Aroni Erni Óskarssyni á gítar og Jóni Rafnssyni á bassa. Nýjasta samspilsútgáfan er jazzdúó kontrabassi og básúna með Jóni Rafnssyni. Stefán Ómar gaf út ljóðabókina Dimmrúnir árið 2015 og er með skáldsöguna Huldureiti í smíðum. Frá árinu 1988 hefur Stefán Ómar kennt við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og frá 2016 verið aðstoðarskólastjóri við sama skóla.

 

,,Í fögrum dal”

10. júlí kl. 14 2022

Hallveig Rúnarsdóttir sópran
Þorbjörn Rúnarsson tenór
Hrönn Þráinsdóttir Píanó / orgel

Næstu tónleikar tónlistarhátíðarinnar Englar og menn í Strandarkirkju verða sunnudaginn 10. júlí nk. kl. 14. Á tónleikunum koma fram söngsystkinin Hallveig Rúnarsdóttir sópran og Þorbjörn Rúnarsson tenór ásamt Hrönn Þráinsdóttur píanóleikara.
Yfirskrift tónleikanna er ,,Í fögrum dal " en á efnisskrá þeirra eru íslensk sönglög og dúettar eftir Hildigunni Rúnarsdóttur, Árna Thorsteinsson, Sigfús Einarsson, Jón Nordal, Karl O. Runólfsson og Jóhann G. Jóhannsson auk óperutónlistar eftir G. Bizet, A. Dvorak, W. A. Mozart og G. Verdi.
Aðgangseyrir er kr. 3.500.
Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Tónlistarsjóði.

UM FLYTJENDUR:
Hallveig Rúnarsdóttir
hefur sungið fjölmörg óperuhlutverk, flest hjá Íslensku Óperunni en einnig víðar. Þá hefur hún frumflutt tvö óperuhlutverk, Stúlku í óperu Kristians Blak, Ljós í ljóði í Færeyjum og hlutverk Gilitruttar í samnefndri óperu eftir Hildigunni Rúnarsdóttur.
Hún hefur komið fram sem einsöngvari víða um heim og sungið sópranhlutverkið í mörgum helstu stórverkum tónbókmenntanna, komið margoft fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt fjölda annarra hljómsveita.
Hallveig hefur sérstaklega verið virk í flutningi nýrrar tónlistar og hefur frumflutt mörg ný íslensk verk og haldið fjölda einsöngstónleika á Íslandi og erlendis undanfarin ár þar sem hún hefur lagt áherslu á ljóðasöng.
Hallveig hlaut Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins í sígildri- og samtímatónlist árið 2013 og aftur árið 2018. Auk þess hlaut hún tilnefningu til sömu verðlauna árin 2014, 2016, 2020 og 2022.
Hún var tilnefnd til Grímuverðlauna sem söngvari ársins 2014 og 2017.
Hallveig er listrænn stjórnandi sönghópsins Cantoque Ensemble sem hefur vakið mikla athygli síðustu ár fyrir flutning á upprunatónlist með barokkhljómsveitum auk tónleika með nýrri íslenskri söngtónlist.
Hallveig er formaður Félags íslenskra tónlistarmanna og tók nýverið við stöðu aðstoðarskólastjóra í Söngskóla Sigurðar Demetz þar sem hún kennir einnig söng.


Þorbjörn Rúnarsson tenór hefur sungið alla sína ævi. Hann hefur verið meðlimur í fjölda kóra, Skólakór Garðabæjar, Hljómeyki, Schola Cantorum, Kór Íslensku Óperunnar, Hamrahlíðarkórunum, Háskólakórnum, Mótettukór Hallgrímskirkju, Söngsveitinni Fílharmóníu, Cantoque Ensemble og svo mætti lengi telja. Sumurin 1989-1992 var hann einn af fulltrúum Íslands í Heimskór æskufólks, World Youth Choir, þar sem ungir söngvarar alls staðar að úr heiminum koma saman og syngja.

Þorbjörn hóf söngnám hjá Sigurði Demetz 1992, flutti til Egilsstaða 1995 og nam söng þar hjá W. Keith Reed. Hann tók virkan þátt í tónlistarlífi á Austurlandi, uns hann flutti aftur suður 2013. Meðal annars söng hann í þremur óperuuppfærslum Óperustúdíós Austurlands, Tamínó í Töfraflautunni, Almaviva greifa í Rakaranum í Sevilla og Ferrando í Cosi Fan Tutte. Þorbjörn hefur sungið einsöng í tveimur uppfærslum Íslensku Óperunnar, Almaviva greifa í Rakaranum í Sevilla eftir Rossini , 2002 og Beadle Bamford í Sweeney Todd eftir Sondheim, 2004. Þorbjörn hefur sungið hlutverk guðspjallamannsins í Jóhannesarpassíunni á Egilsstöðum, í Reykjavík og í Færeyjum. Önnur einsöngshlutverk hafa orðið á vegi hans s.s. í Jólaóratoríu Bachs, Messíasi eftir Handel og Requiem eftir Mozart auk ýmissa verka eftir fjölda tónskálda, bæði innlendra og erlendra. Þorbjörn syngur nú með Kór Íslensku Óperunnar, Hljómeyki og Kór Hallgrímskirkju.

Hrönn Þráinsdóttir stundaði framhaldsnám við píanóleik við Staatliche Hochschule für Musik í Freiburg og lauk þaðan diplóma kennaraprófi vorið 2004 og tók meðleik við ljóðasöng sem aukafag. Kennarar hennar voru Dr.Tibor Szász og Hans-Peter Müller.
Að því loknu nam hún við ljóðasöngdeild Tónlistarháskólans í Stuttgart undir handleiðslu Cornelis Witthoefft og lauk sérhæfðu diplómanámi sumarið 2007.
Hrönn hefur komið fram á tónleikum víða sem einleikari, meðleikari og við flutning kammertónlistar auk þess að hafa hljóðritað fyrir útvarp og leikið inn á geisladiska.
Hún hefur verið virk í uppeldisstarfi ungra söngvara, verið tónlistarstjóri uppfærslna síðustu ára hjá óperudeild Söngskólans í Reykjavík þar sem fluttar hafa verið perlur óperubókmenntanna. Hún hefur einnig ferðast víða um land síðustu misseri og kynnt óperutónlist og hið íslenska sönglag fyrir grunnskólabörn í öllum landshlutum.
Hún er einn helsti meðleikari óperusöngvara á Íslandi og hefur verið afar virk í tónleikahaldi á Íslandi.
Hrönn er kennari við Söngskólann í Reykjavík, Söngskóla Sigurðar Demetz og við Menntaskóla í tónlist, MÍT.

,,Með vængjaþyt og söng”

3. júlí kl. 14. 2022

Bryndís Guðjónsdóttir sópran
Ingunn Hildur Hauksdóttir píanó og orgel

Á efnisskránni eru eru íslensk þjóðlög og sönglög eftir
Þórarinn Jónsson, Pál Ísólfsson, Jórunni Viðar, Gunnar Þórðarson og Tryggva M. Baldvinsson
ásamt verkum eftir Pergolesi, Orff, Grieg, Alyabyev, Delibes og Brahms.

Aðgangseyrir er kr. 3.500. Miðasala við innganginn.

Tónlistarhátíðin er styrkt af Samtökum sunnlenskra sveitarfélaga og Tónlistarsjóði.

Um flytjendur:

Bryndís Guðjónsdóttir hlaut fyrsta sæti í Raccardo Zandonai keppninni á Garda árið 2021. Sama ár fór
hún tvívegis með hlutverk Næturdrottningarinnarúr Töfraflautunni eftir Mozart í Reaktorhalle í München
undir stjórn Waltraud Lechner og með Oper im Berg í Salzburg undir stjórn Stefano Seghedoni. Bryndís
hefur komið víða að erlendis og innanlands hefur hún sungið einsöng með Sinfóníuhljómsveit Íslands,
síðast á jólatónleikum þeirra árið 2021 og mun syngja í uppfærslu þeirra í Töfraflautunni árið 2023.
Bryndís útskrifaðist með bakkalár- og meistaragráðu í Opera and Musical Theatre frá Mozarteum
Tónlistarháskólanum í Salzburg þar sem hún lærði hjá Michéle Crider, Gernot Sahler og Alexander von
Pfeil. Þar áður hafði Bryndís lokið framhaldsprófi í söng árið 2015 hjá Önnu Júlíönu Stefándsóttur og
numið eitt ár við Listaháskóla Íslands hjá Þóru Einarsdóttur, Kristni Sigmundssyni og Ólöfu Kolbrúnu
Harðardóttur. Hún var meðal sigurvegara keppninngar Ungir einleikarar árið 2018 og bar sama ár sigur úr
bítum í Duschek keppninni í Prag. Bryndís hefur hlotið styrki hérlendis frá Tónlistarsjóði Rótarý,
Halldórs Hansen, Söngmenntasjóði Marínós Péturssonar, Wagnerfélagi Íslands og Ingjaldssjóði. Árið
2022 söng Bryndís tvívegis Carmina Burana, í Stuttgart undir stjórn Heiko Mathias Förster í Liederhalle í
Stuttgart með Prague Royal Philharmonic og í Norðurljósum í Hörpu undir stjórn Fjólu Kristínar
Nikulásdóttur. Bryndís söng Stabat mater eftir Pergolesi og Nulla in Mundo RV 630 eftir Vivaldi í
Litháen fyrr í sumar.

Ingunn Hildur Hauksdóttir píanóleikari er fædd í Reykjavík árið 1969. Hún stundaði nám hjá Kristínu
Ólafsdóttur við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Ingunn lauk píanókennara- og einleikaraprófi frá
Tónlistarskólanum í Reykjavík 1993 og naut þar leiðsagnar Jónasar Ingimundarsonar. Ingunn sótti
einkatíma um tveggja ára skeið í London hjá Roger Vignoles. Ingunn hefur sl. 20 ár tekin virkan þátt í
íslensku tónlistarlífi, með áherslu á kammertónlist. Hún hefur gert upptökur fyrir útvarp og geisladiska og
komið fram á tónleikum hérlendis og erlendis, oft með áherslu á kynningu og flutning íslenskrar tónlistar.
Ingunn hefur leikið með ýmsum kammerhópum og m.a. flutt fyrir Kammermúsíkklúbbinn píanókvintetta
og sextetta eftir R. Vaughan Williams, J. N. Hummel, L. Farrenc, F. Schubert og F. Mendelsohn ásamt
frumflutningi íslenskrar tónlistar fyrir tríó eftir Elínu Gunnlaugsdóttur og Báru Grímsdóttur. Ingunn
kennir píanóleik við Tónlistarskóla Garðabæjar og starfar sem meðleikari við Menntaskóla í Tónlist.

Hilmar Örn Agnarsson, Björg Þórhallsdóttir og Matthías Nardeau

,,Englar hæstir”

26. júní 2022 - Tónlistarmessa

Flytjendur tónlistar:
Björg Þórhallsdóttir sópran
Matthías Nardeau óbó
Hilmar Örn Agnarsson harmóníum
Prestur:
sr. Ninna Sif Svavarsdóttir

Tónlistarmessa verður í Strandarkirkju nk. sunnudag kl. 14 á Tónlistarhátíðinni Englar og menn í samvinnu við Strandarkirkju.
,,Englar hæstir" er yfirskrift messunnar en tónlistarflutning annast Björg Þórhallsdóttir sópransöngkona, Matthías Nardeau óbóleikari og við orgelið verður Hilmar Örn Agnarsson organisti. Þau flytja m.a. íslensk sönglög og sálma eftir Árna Thorsteinsson og Þorkel Sigurbjörnsson ásamt tónlist eftir G. Fauré, W. Gomez, J.S. Bach, F. Mendessohn og T. Albinoni.

Aðgangur ókeypis!

Hrafnhildur Marta, Guðbjartur, Sigríður og Helga Bryndís

,,Í sjöunda himni”

19. júní kl. 16 2022

Sigríður Aðalsteinsdóttir mezzósópran
Helga Bryndís Magnúsdóttir píanó
Guðbjartur Hákonarson fiðla
Hrafnhildur Marta Guðmundsdóttir selló

Tónlistarhátíðin Englar og menn í Strandarkirkju hefst á sunnudaginn kemur, 19. júní með tónleikum kl. 16 (athugið breyttan tíma).

Yfirskrift tónleikanna er ,,Í sjöunda himni" en þar verður flutt skemmtileg dagskrá af íslenskum dægurlögum í útsetningum Þórðar Magnússonar,
íslenskum sönglögum eftir Atla Heimi, Inga T, Sigfús Einarsson o.fl ásamt þekktum erlendum perlum tónbókmenntanna.

Aðgangseyrir kr. 3.500. Tekið er við greiðslukortum. Miðasala er við innganginn.