Back to All Events

„Vor í holtinu" - Tónleikar 21. júlí 2019

Auður Gunnarsdóttir sópran
Ágúst Ólafsson baritón
Eva Þyrí Hilmarsdóttir harmóníum / píanó

„Vor í holtinu". Á efnisskránni er blönduð dagskrá sem samanstendur af sálmum, þjóðlagaútsetningum og íslenskum sönglögum. Meðal sönglaga verða nokkur lög eftir Jónas Ingimundarson píanóleikara en hann fagnaði 75 ára afmæli í maí sl.

Auður Gunnarsdóttir sópran er fædd í Reykjavík. Hún lauk 8. stigi í söng frá Söngskólanum í Reykjavík vorið 1991 þar sem kennari hennar var Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Árið 1992 hélt hún til Stuttgart þar sem hún stundaði framhaldsnám við tónlistarháskólann og lauk árið 1995 Diplomaprófi frá Ljóðadeild, 1996 M.A. prófi frá óperudeild, 1997 M.A. frá einsöngvaradeild. Kennarar hennar þar voru Prof.Luisa Bosabalian og Carl Davis. Á námsárunum sótti Auður námskeið hjá Renötu Scotto, Brigitte Fassbaender og Hermann Prey. Haustið 1999 fékk Auður fastan samning við óperuna í Würzburg þar sem hún söng mörg aðalhlutverk fyrir sópran. Má þar nefna Rosalindu í Leðurblökunni, Antóníu í Ævintýrum Hoffmanns, Pamínu í Töfraflautunni, Micaälu í Carmen, Donnu Elviru í Don Giovanni, Blance í Samtali karmellítanna, Annínu í Nótt í Feneyjum, Luísu í Unga lordinum o.m.fl. Auk þess kom Auður reglulega fram í óperuhúsunum í Mannheim, Heidelberg, Bielefeld og Hannover. Auður hefur haldið fjölda ljóðatónleika hér heima og erlendis og hefur hún hlotið fjölda styrkja, meðal annars styrk þýska Wagner félagsins, listamannalaun ríkisins og styrki úr Tónlistarsjóði. Diskar sem Auður hefur sungið inn á eru Íslenskir söngvar, Der Tod Jesu með Fílharmóníukórnum í Stuttgart, heildarútgáfa af verkum Sigvalda Kaldalóns og Jóns Þórarinssonar, Little Things Mean a Lot og Ljóð, Lieder, Songs en sá síðast nefndi var tilnefndur til Íslensku tónslistarverðlaunanna 2012.

Í Íslensku óperunni hefur Auður farið með hlutverk Mimiar í La Bohéme, Pamínu og 2.Dömu í Töfraflautunni , Greifynjunnar í Brúðkaupi Fígarós, Santuzzu í Cavaleria Rusticana og Elle í La voix humaine. Fyrir hlutverk Elle hlaut Auður tilnefningu til Grímuverlaunanna og Íslensku tónlistarverlaunanna sem besta söngkona ársins 2017. Auður hefur oft komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sem einsöngvari með ýmsum kórum og sönghópum. Má þar nefna sönghópinn The King´s singers og karlakórinn Fóstbræður.

Ágúst Ólafsson baritón stundaði nám við Tónlistarskóla Hafnarfjarðar hjá Eiði Á. Gunnarssyni og síðan við Síbelíusar-akademíuna hjá Jorma Hynninen og Sauli Tiilikainen. Hlutverk Ágústs hjá Íslensku óperunni eru fjöldamörg, þar á meðal Papageno í Töfraflautunni í fyrstu uppfærslu Íslensku óperunnar í Hörpu, Marcello í La Bohème, titilhlutverkið í Sweeney Todd, Skugginn í The Rake‘s Progress, Harlekin í Ariadne á Naxos, Douphol barón í La traviata, Belcore í Ástardrykknum og Marullo í Rigoletto, auk þess sem hann var einn söngvaranna í sýningunni Perluportið vorið 2011 og í Óperuperlum árin 2007 og 2009.

Í maí 2009 fór hann með hlutverk Álfs í frumflutningi óperunnar Hel eftir Sigurð Sævarsson. Ágúst hlaut Grímuna árið 2010 fyrir hlutverk sitt í Ástardrykknum í Íslensku óperunni haustið 2009. Hann hefur þrisvar verið tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut árið 2011 Íslensku tónlistarverðlaunin sem Flytjandi ársins ásamt Gerrit Schuil fyrir flutning sinn á ljóðaflokkum Schuberts á Listahátíð í Reykjavík 2010. Hann söng hlutverk Dancaïre í Carmen hjá Íslensku óperunni haustið 2013.Að loknum prófum frá Tónlistarskólanum í Reykjavík stundaði Eva Þyri Hilmarsdóttir nám við Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum, Danmörku, og lauk þaðan einleikaraprófi. Að því loknu nam hún við The Royal Academy of Music í London, en þaðan útskrifaðist hún með hæstu einkunn, hlaut heiðursnafnbótina DipRAM og The Christian Carpenter Piano Prize fyrir framúrskarandi lokatónleika. Helstu kennarar hennar voru Þorsteinn Gauti Sigurðsson, Halldór Haraldsson, John Damgård og Michael Dussek.

Auk fjölda einleikstónleika hefur Eva Þyri komið fram sem einleikari með hljómsveit og tekið þátt í frumflutningi íslenskra og erlendra verka m.a. á hátíðunum Myrkum Músíkdögum, Ung Nordisk Musik, Young Euro Classic Festival í Berlín og Young Composers Symposium í London. Undanfarin ár hefur hún einnig lagt mikla áherslu á flutning ljóðasöngs og kammertónlistar og kom m.a. fram á rúmlega hundrað tónleikum tileinkuðum íslenskum sönglögum í Hörpu, í tónleikaseríunni Pearls of Icelandic Song.

Eva Þyri tók þátt í uppsetningu Íslensku óperunnar 2017 á Mannsröddinni eftir Poulenc og 7. desember síðastliðinn kom út geisladiskur með söngverkum Jórunnar Viðar sem hún hefur unnið í samstarfi við Erlu Dóru Vogler í tilefni 100 ára afmælis Jórunnar og var sá diskur tilnefndur til Íslensku tónlistarverðlaunanna 2019.


Kirkjan opnar kl. 13.15 og tónleikar hefjast kl. 14:00.

Aðgangseyrir: 2900 kr. Miðar eingöngu seldir við dyrnar.